Barentshafið

Haf breytinganna

Miklar stofnsveiflur hafa verið hjá þorski í Barentshafi. Þróun stofnsins hefur alltaf verið á skjön við ráðgjöf og spár. Á níunda áratugnum var gert ráð fyrir mikilli aukningu stofnsins í kjölfar góðrar nýliðunar, en stofninn hrundi úr hor. Undanfarin ár hefur verið veitt langt umfram ráðgjöf, stofninn er samt í góðu standi, sennilega vegna þessara "umframveiða".

2011. Nú er þorskveiði með eindæmum góð í Barentshafi og stofninn stendur vel. Þrátt fyrir umframveiðina hefur stofninn stækkað. En sé aflinn skoðaður aftur í tímann sést að hann var mun meiri áður fyrr meðan sóknin var frjáls. Á sjöunda áratugnum voru 3000 erlend skip að veiðum í Barentshafi auk þeirra norsku. Útlendingarnir fóru svo af miðunum eftir miðjan sjöunda áratuginn og 1987 var farið að stjórna veiðum með hámarksafla og síðar kvótum.

Veiði langt umfram ráðgjöf

Eftir hrunið mikla var farið að leggja til hærri kvóta en vísindamennirnir ráðlögðu, auk þess fór veiðin einnig talsvert fram úr kvótunum. Ekki má heldur gleyma að Rússarnir hafa veitt langt umfram heimildir, jafnvel svo skiptir hundruðum þúsunda tonna á ári. Þá er stór hluti rússnesska togaraflotans með klæddar vörpur til að veiða smáþorsk, sem góður markaður er fyrir í Rússlandi. Mest er veitt í troll og þarna er búið að skafa botninn í hundrað ár, sem virðist í góðu lagi. Hér á Íslandi er því haldið fram að togveiðar og jafnvel snurvoð eyðileggi botninn og eigi mikinn þátt í minnkandi þorskstofni. Myndin sýnir hvernig aflinn hefur farið fram úr ráðgjöfinni frá 1991, öll árin nema 1997 en þá virðast vísindamenn verið of bjartsýnir . Samtals er framúrkeyrslan frá 1990 2,6 milljónir tonna eða 30 %. Og aflinn vex.

Þetta verður að túlka sem svo að veiðarnar örvi framleiðsluna í stofninum, stækki hann, sem er þvert á kenningar hinna hefðbundnu vísindamanna hjá ICES. Ekkert er hægt að segja um hvort stofninn stækki áfram eða hvort hann fari að detta aftur. Af fréttum að dæma er mikið af stórum fiski í Barentshafi en ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega. Hann gæti farið að verða ellidauður og það gæti valdið mikilli aukningu í nýliðun og þar með ætisþörf. Það kemur í ljós.....

Loðnan og þorskurinn

Ég heyri stöðugt að orsök þess að þorskstofninn stendur svona vel sé sú að Norðmenn hafi friðað loðnu og þorskurinn notið góðs af því. Þetta er gjarnan fullyrt af þeim sem telja að loðnuveiðar við Ísland séu af hinu vonda því betra sé að þorskurinn fái að njóta hennar. Til eru þeir sem vilja kenna loðnuveiðum um bágt ástand Íslenska þorskstofnsins.
Sannleikurinn er hins vegar sá að þegar loðna er ekki veidd í Barentshafi, þá er stofninn í núlli og ekkert til að veiða.

Hér má sjá stærð loðnustofnsins og loðnuaflann frá 1972. Myndin er á margan hátt mjög fróðleg. Loðnustofninn var stór, 7-9 milljón tonn, og afli mjög mikill, 2-3 milljónir tonna. Eftir 1976 dregur mjög úr þorskafla. Þá voru erlend skip að fara úr landhelginni og virk stjórnun veiða hófst. Í kjölfar samdráttar í veiðum af manna völdum minkar loðnustofninn og hrynur 1985-6. Freistandi er að álykta sem svo að minnkandi veiðiálag á þorsk hafi valdið auknu beitarálagi og hún hreinlega verið étin upp. Þorskurinn horféll í kjölfarið. Þá hefjast hörmungarárin þegar 70% langvíustofnsins féll úr hor og selurinn flykktist upp að norsku ströndinni í leit að æti. Þessu er lýst í grein hér að neðan, "Er Barentshafið drullupollur?", en þar segir m.a:

Í dagblaðinu Bergens Tidende laugardaginn 6. janúar sl. (1990) er haft eftir Odd Nakken, forstjóra norsku Hafró:

"Niðurstöður úr fjölstofna rannsóknum benda til þess að fæðuþörf hins mjög svo vaxandi þorskstofns hafi tvöfaldast frá 1984 til 1986."

"þetta kom mest niður á loðnunni. Loðnuát þorsksins þrefaldaðist frá 1984 til 1985 með þeim afleiðingum að loðnustofninn nær kláraðist. Jafnframt át þorskurinn stöðugt meiri síld, smáþorsk og ýsu. Árið 1985 og 1986 át þorskurinn um 500 þúsund tonn af síld, og trúlega er þetta meginskýringin á því að þessir tveir síldarárgangar eru horfnir."

"Þrátt fyrir að þorskurinn æti upp loðnu og síld og seinna bæði ýsu og þorsk, fékk hann samt ekki nóg æti. Frá 1986 hefur þorskurinn vaxið miklu hægar en hann gerði áður. Meðalþyngd 5 ára þorska var 1.8 kg veturinn 1986 en meðalþyngd 5 ára fiska árið 1988 var einungis 0.7 kg."

"Auk þessara náttúrulegu orsaka bættist við að miklu af smáfiski var kastað fyrir borð, sérstaklega 1986/7. Þó það sé smáræði samanborið við vaxtarrýrnunina og það sem étið var, má ekki alveg líta fram hjá því."

Odd Nakken sagði ennfremur að ekki hefði verið hægt að komast hjá hruninu í loðnustofninum þótt dregið hefði verið úr loðnuveiðunum, eða þeim næstum hætt, frá árinu 1983. En hrunið hefði etv. ekki orðið eins snöggt. Nú er loðnustofninn að rétta við aftur.

Hér eru fleiri greinar um Barentshaf:

- Til baka á forsíðu -